-, Laktósafríar uppskriftir-Vatnsdeigsbollur með kirsuberjarjómafyllingu

Vatnsdeigsbollur með kirsuberjarjómafyllingu

Það er sá tími ársins að nú þýðir ekkert annað en að bretta upp ermar og henda sér í bollubakstur 🙂

Linda Ben, sem heldur úti blogginu lindaben.is gerði þessa girnilegu uppskrift fyrir okkur og útskýrir hvernig á að að baka hinar fullkomnu vatnsdeigsbollur.

Fullkomnar vatnsdeigsbollur með alvöru mjúku súkkulaði:

Það sem þarf:
125 g smjör/smjörlíki (Lítið mál er að útbúa laktósafrítt smjör úr rjómanum frá Örnu, sjá hér: https://arna.is/laktosafritt-smjor/)
1 msk sykur
275 ml vatn
170 g hveiti
1 tsk lyftiduft
1/2 tsk salt
4-5 egg

Mjúkur súkkulaðihjúpur:

Það sem þarf:
1 dl rjómi frá Örnu
225 g súkkulaði

Fylling:

500 ml rjómi frá Örnu
Kirsuberjasósa
100 g marsípan
2 msk flórsykur

Bollur, aðferð:
1. Kveiktu á ofninum og stilltu á 180°C og blástur.

2. Smjör, sykur og vatn er sett í pott og soðið saman í 2-3 mín. Slökktu svo undir pottinum.

3. Hveiti, lyftiduft og salt er sett í skál, bættu því út í smjör-vatnið og hrærðu vel saman með sleif. Deigið á að vera þétt og lyftast upp frá brúnum pottsins. Láttu standa í 5 mín.

4. Settu fjögur egg út í deigið, eitt og eitt í einu og hrærðu þau vel saman við deigið. Settu seinasta eggið í skál og hrærðu það saman, settu 1 msk af egginu út í og hrærið vel á milli. Settu eins mikið af egginu út í deigið og hægt er en fylgstu vel með eftirfarandi merkjum. Áferðin á að vera þannig að deigið lekur hægt og svolítið erfiðlega af sleifinni á nokkrum sekúndum. Deigið á að halda nokkurnveginn sömu lögun eftir að þú setur það á plötuna en ekki leka út og verða flatt.

5. Settu smjörpappír á ofnplötu og notaðu ísskeið eða tvær matskeiðar til að útbúa bollurnar. Hafðu gott pláss á milli bollanna því þær stækka mikið í ofninum, um það bil 12 bollur á hverja plötu.

6. Bollurnar eru bakaðar í 20-25 mín en ekki opna ofninn fyrr en allavega 20 mín eru liðnar. Þá er hægt að taka eina út og meta hversu margar mínútur bollurnar eiga eftir, en þú sérð það þegar þú opnar bolluna og sérð hversu blaut hún er inní.

Súkkulaði hjúpur, aðferð:
1. Settu rjóma í lítinn pott og hitaðu hann vel. Slökktu svo undir pottinum.

2. Brjóttu súkkulaðið ofan í rjómann og hrærðu í því með skeið þangað til það er alveg bráðnað. Það getur tekið smá stund fyrir súkkulaðið að bráðna fullkomlega.

3. Settu súkkulaðið í skál og leyfðu því að stirna svolítið á svölum stað, svo það leki ekki of mikið þegar það er sett á bollurnar.

Fylling, aðferð:
1. Þeyttu rjómann og settu u.þ.b. 3 msk af rjóma í skál, rífðu marsípaninn ofan í og blandaðu saman vði með sleikju. Bættu við flórsykri, kirsuberja sósu og rjóma þangað til þú ert ánægð/-ur með bragðið og þú ert komin með það magn sem þú þarft á bollurnar.

2. Skerðu bollurnar í helminga og settu fyllinguna inn í bollurnar og settu súkkulaðihjúpinn á bollurnar.

Sjá færslu á blogginu hjá Lindu hér: http://lindaben.is/recipes/fullkomnar-vatnsdeigsbollur-med-mjukum-sukkuladihjup-ur-alvoru-sukkuladi/