Einstaklega góð formkaka sem minnir mikið á piparkökur. Kakan er blaut, klessuleg og bráðnar í munninum. Kremið er sætur rjómi sem passar einstaklega vel með piparkökubragðinu. Það eina sem vantar er heitt kakó með til að toppa jólafýlinginn sem ég mæli svo sannarlega með.
Kveikið á ofninum og stillið á 175°C og undir+yfir hita.
Setjið vatn, síróp og smjör í pott, sjóðið saman í 2-3 mín.
Setjið í skál hveiti, engifer, kanil, matarsóda, negul, múskat, salt og púðursykur, blandið öllu vel saman. Hellið út í smjörblöndunni og hrærið saman þar til blandan byrjar að kólna svolítið.
Setjið AB-mjólkina út i deigið ásamt eggjunum og vanilludropunum og hrærið saman.
Setjið smjörpappír í 25×40 cm stór form (eða sambærilegt) og hellið deiginu í, bakið í u.þ.b. 35-40 mín eða þar til kakan er bökuð í gegn.
Leyfið kökunni að kólna fullkomlega.
Þeytið rjómann og á meðan hann er að þeytast bætið þá út í flórsykrinum hægt og rólega, smyrjið rjómanum á kökuna þegar hún hefur kólnað.