Grjónagrautur í ofni

Grjónagrautur í ofni.

Hér er um að ræða einn af uppáhalds réttum krakkanna. Þau elska grjónagraut hvort sem það er í hádegismat eða kvöldmat. Ef grjónagrauturinn er í kvöldmat sýð ég yfirleitt lifrapylsu með sem þeim finnst ótrúlega gott.

Grjónagrautur er ódýr kvöldmatur. Það er einnig mjög sniðugt að smella í grjónagraut þegar maður á mikla mjólk heima sem þarf að nota. Grauturinn endist í nokkra daga tilbúinn inn í ísskáp.

Ég nota yfirleitt hýðishrísgrjón þegar ég geri grjónagraut en þannig verður hann örlítið næringarmeiri, grjónin eru örlítið stífari og bragðmeiri en krakkarnir eru orðin vön því og kippa sér ekkert upp við það. Það þarf að hafa í huga að lengja bökunartímann ef notuð eru híðishrísgrjón því þau taka lengri tíma að eldast.

Uppskrift frá Lindu Ben.

Innihaldsefni

3 dl hrísgrjón

1 ½ l Nýmjólk frá Örnu Mjólkurvörum

1 msk sykur

25 g smjör

½ tsk salt

1 dl rúsínur (má sleppa)

 

Kanilsykur

2 msk sykur

1 msk kanill

Aðferð

  1. Kveikið á ofninum og stillið á 180°C og undir+yfir hita.
  2. Setjið hrísgrjónin í eldfastform eða steypujárnspott með loki.
  3. Setjið hrísgrjónin í pottinn/eldfasta mótið ásamt mjólkinni, 1 msk sykri og smjörinu, blandið saman og setjið lok á pottinn eða setjið álpappír yfir eldfasta mótið. Setjið inn í ofn í klukkutíma, hrærið svo í grautnum, setjið rúsínurnar út í ef þið viljið, lokið aftur og bakið í u.þ.b. 30 mín eða þar til hrísgrjónin eru soðin í gegn og mjólkin dregið sig inn í grautinn.
  4. Blandið saman sykri og kanil, setjið u.þ.b. 1-2 tsk yfir grautinn eða eftir smekk og örlítið af mjólk.

Verði ykkur að góðu!

Deila uppskrift á Facebook