Eggaldin pizza

Eggaldin pizza er það sem hefur komið mér hvað mest á óvart undanfarið.

Ég rakst á svipaða hugmynd af eggaldin pizzu á netinu um daginn þegar ég var að leita mér að innblæstri fyrir síðuna. Mér fannst þetta afar áhugaverð hugmynd og ákvað að prófa að gera mína eigin útfærslu af þessu. Ég var svo sem ekki að búast við neinu sérstöku, ég skal alveg viðkenna að ég var alveg smá hrædd um að þetta væri vont en forvitnin rak mig áfram. Ég smellti í þetta, tók út úr ofninum, smakkaði, og vá ég var í sjokki! Þetta var bara í alvörunni hrikalega gott!

Að sjálfsögðu er hægt að setja hvað sem er ofan á “pizzuna”, ég var ekkert að flækja þetta og smellti sveppum ofan á, en þú lætur ekki hugmyndaflugið þitt enda þar, prófaðu að smella uppáhalds pizzaálegginu þínu ofan á og ég er viss um að þú verður alsæl/l með útkomuna.

Ég þarf ekki að taka það fram en geri það nú samt, þetta er alveg klárlega hollari útgáfa af hefðbundinni pizzu, minna brauð og meira grænmeti.

Uppskrift og myndir frá Lindu Ben.

Innihaldsefni

Eggaldin

2 msk ólífu olía

Pastasósa

Rifinn Mozzarella með pipar kryddosti

Sveppir

Hvítlauksgeiri

Heitt (sterkt) pizzakrydd

Aðferð

  1. Kveiktu á ofninum og stilltu á 200°C.
  2. Skerðu eggaldinið langveginn í sneiðar (u.þ.b. 1 cm þykkar).
  3. Penslaðu ólífu olíu á eggaldinið og svo pizzasósu.
  4. Setjið ost ofan á og svo álegg eins og t.d. sveppi.
  5. Rífið hvítlauksrifið yfir og kryddið vel með pizzakryddi.
  6. Bakið inn í ofni í u.þ.b. 20 mín eða þar til osturinn er orðinn gullinbrúnn.

Verði ykkur að góðu!

Deila uppskrift á Facebook