Þetta girnilega piparostabrauð er uppskrift frá Valgerði fyrir GulurRauðurGrænn&Salt. En eins og Valgerður segir ” Þetta brauð þarf ekkert að útskýra. Það er bara dásamlega himneskt, einfalt í gerð, passar með öllu – hvort sem er með mat eða bara á brunch borðið. Fá hráefni og ekkert vesen. Leiðbeiningarnar kunna að líta út fyrir að vera flóknar en það er nú alls ekki allt sem sýnist! Piparosturinn er bæði settur í brauðið og ofan á og hann gefur alveg einstaklega gott bragð”

Ef þú varst að spá í að baka á helginni, þá er þetta uppskriftin fyrir þig!

Hráefni sem þú þarft:
9 dl brauðhveiti

1 poki þurrger

2 tsk himalyasalt, aðeins minna ef notað er borðsalt

4 dl mjólk

2 msk olía

1 piparostur, rifinn og skipt í tvennt

Rifinn ostur með pipar

1 egg

Fersk steinselja ef vill

Aðferð:

  1. Velgið mjólkina upp í 37°C
  2. Blandið gerinu saman við og hrærið aðeins í, látið bíða í 5 mín
  3. Setjið þurrefni ásamt helmingnum af piparostinum og 80 g. af rifnum osti með pipar í hrærivélaskál
  4. Bætið ger/mjólkurblöndu saman við og hnoðið með hnoðaranum. Bætið olíu saman við stuttu á eftir
  5. Hnoðið í hrærivélina í góðar 5 mín
  6. Smyrjið miðlungsstóra skál með olíu og setjið deigið í, breiðið plastfilmu yfir og látið hefast í 1 klst
  7. Búið til litlar bollur úr deiginu og raðið á bökunarpappír sem hefur verið settur á ofnplötu
  8. Sláið saman egginu og penslið bollurnar og stráið restinni af ostinni yfir, bæði rifna piparostinum og rifna ostinum
  9. Hefið í ofni sem stillur er á 50°C í 30 mín
  10. Takið brauðið út og hitið ofninn í 200°C. Bakið í c.a. 15 mín eða þar til bollurnar og osturinn er orðinn vel gylltur

Myndir og uppskrift, Valgerður https://grgs.is/recipe/piparostabraud/