Marengsterta með kókosbollu rjómafyllingu og berjatoppi

Marengsterta með kókosbollu rjómafyllingu og berja toppi er algjörlega besta marengsterta sem ég hef smakkað lengi!

Marengsinn sjálfur inniheldur bæði púðursykur og rice crispies sem gerir hann einstaklega góðan. Hann er svolítið eins og karamella og einstaklega bragðgóður! Uppskriftin af þessum botni er margra ára gömul frá mömmu minni og hefur verið bökuð óteljandi oft við eindæma góðar viðtökur í hvert sinn.

Ég er mjög skotin í því að baka marengstertur eins og skál í staðin fyrir tvo botna sem leggjast ofan á hvorn annan. Fallegast finnst mér þegar ég nota bakhlið af skeið og slétti hliðarnar. En það er þó ekkert heilagt, það er algjörlega hægt að baka kökuna sem tvo botna ef áhugi er fyrir því.

Fyllingin er frekar einföld svo hvert bragð nýtur sín til fulls. Kókosbollurnar passa fullkomlega með rjómanum og karamellulega botninum, svo koma berin með léttleikann og ferskleikann. Fullkomin blanda ef þú spyrð mig.

Þessi kaka sló algjörlega í gegn hér, við gátum að bara ekki lagt gafflana frá okkur með þessa köku á borðinu, svo góð var hún. Ég er því alveg viss um að hún á eftir að slá í gegn hjá þér líka! ❤️

Uppskrift og myndir eru frá Lindu Ben.

Innihaldsefni

4 eggjahvítur

1 dl púðursykur

2 dl sykur

100 g rice crispies

7 dl rjómi frá Örnu Mjólkurvörum

3 kókosbollur

1 dl smátt skorin jarðaber

1 dl önnur ber, t.d. bláber eða brómber

u.þ.b. 150 g sulta (ég notaði St. Dalfour Four Fruits)

2 msk vatn

Fersk ber til að skreyta með

Aðferð

  1. Byrjið á því að kveikja á ofninum og stilla á 140ºC og stilla á undir og yfir.
  2. Best er að þeyta eggjahvíturnar í alveg tandurhreinni stál skál (smá fita í skálinni getur gert það að verkum að þær þeytast ekki eða mjög illa). Þeytið eggjahvíturnar og þegar þær byrja að freyða setjið þá púðursykurinn og sykurinn út í og þeytið þar til eggjahvíturnar eru stífþeyttar. Þið vitið að eggjahvíturnar eru tilbúnar þegar þið dýfið þeytaranum ofan í eggjahvíturnar og kippið upp aftur, eggjahvíturnar á þeytaranum eiga ekki að hreyfast.
  3. Setjið Rice Crispies út í og blandið saman með sleikju.
  4. Teiknið hring á smjörpappír (best að taka disk sem er 22 cm í þvermál og teikna meðfram diskinum) snúið pennastriks hliðinni niður og setjið deigið á smjörpappírinn inn í hringinn. Myndið skál úr deiginu þar sem hliðarnar eru frekar þykkar og ná hátt upp, gott að nota bakhliðina á skeið til þess að gera ytri hliðar marengsins sléttar.
  5. Bakið í 90 mín og slökkvið svo á ofninum og leyfið kökunni að kólna með ofninum (sniðugt að gera kökuna að kvöldi og láta kólna yfir nótt og þá er kakan tilbúin næsta dag, en það er alls ekki nauðsynlegt)
  6. Þeytið rjómann og brjótið kókosbollurnar út í, blandið saman með sleikju.
  7. Skerið jarðaberin smátt niður og setjið út í ásamt bláberjunum, blandið saman með sleikju og setjið ofan í marengstertuna.
  8. Setjið sultuna í skál og blandið smá vatni saman við til að gera hana þynnri. Setjið sultuna ofan á rjómann, fallegt ef hún lekur örlítið niður með hliðunum.
  9. Skreytið með ferskum berjum.

Verði ykkur að góðu!

Deila uppskrift á Facebook