Marengsterta með karamelluðum perum

Þessi marengsterta er alveg dásamlega góð og minnir okkur á gömlu tímana en þó með nýjum snúning.

Perurunar eru látnar malla í smjöri og sykri sem veldur því að þær verða mjúkar og fá á sig karamelluhúð.

Marengsinn sjálfur inniheldur Rice Crispies sem verldur því að hann verður extra stökkur og loftmikill.

Það er um að gera að baka marengsbotnana með góðum fyrirvara, ég geri þá oft með viku fyrirvara og geymi við stofuhita. Svo smelli ég þeim saman með nokkura klukkutíma fyrirvara og geymi í kæli.

Uppskrift og myndir frá Lindu Ben.

Innihaldsefni

4 eggjahvítur

¼ tsk cream of tartar

¼ tsk salt

60 g púðursykur

200 g sykur

50 g Rice Crispies

400 ml rjómi frá Örnu Mjólkurvörum

6 litlar perur (4 venjulegar)

30 g smjör

1 dl sykur

½ dl Nóa Kropp, kramið að hluta (má sleppa)

Aðferð

  1. Kveikið á ofninum og stillið á 140°C og undir+yfir hita.
  2. Setjið eggjahvítur í tandurhreina skál ásamt cream of tartar og salti, þeytið þar til byrjar að freyða. Bætið þá púðursykrinum og sykrinum saman við rólega og þeytið þar til eggjahvíturnar ná alveg stífum toppum. Bætið þá Rice Crispiesinu út á og veltið því varlega saman við með sleikju.
  3. Teiknið tvo 22 cm hringi á smjörpappír og snúið pennastrikinu niður áður en þið skiptið deiginu á milli hringanna, sléttið fallega úr botnunum. Bakið í 50 mín og slökkvið þá á ofninum en ekki taka botnana úr ofninum fyrr en þeir eru orðinir alveg kaldir. Hægt er að gera botnana með allt að viku fyrirvara.
  4. Takið hýðið af perunum, kjarnhreinsið þær og skerið í langar sneiðar.
  5. Bræðið smjörið á pönnunni og bætið perunum út á pönnuna ásamt sykri. Leyfið þessu að malla við meðal hita í u.þ.b. 20-30 mín eða þar til perunurnar eru orðnar karamellaðar og sírópið þykkt. Setjið þetta í ísskáp og leyfið perunum að kólna alveg. Perurnar kólna hraðar ef þær eru settar í fat þar sem dreifist vel úr þeim.
  6. Setjið neðri botninn á kökudisk, setjið helminginn af rjómanum á botninn og helminginn af perunum ofan á (skiljið mest af peru sírópinu eftir). Setjið efri botninn ofan á ásamt rjóma og perunum.

Verði ykkur að góðu!

Deila uppskrift á Facebook